Frétt

30. desember 2015

Hesthúsið

Það var á haustdögum 2004 þegar vertarnir á Kríunni  tóku sig upp og fluttu  úr Garðabænum   í  Glóru í Hraungerðishreppi. Það var ekki meiningin í upphafi að flytja heldur var verið að leita eftir beitarstykki fyrir hrossin.  Þegar frúin á Kríumýri mætti til að skoða fjósið í Glóru og stykkið sem því fylgdi, gerðust hlutirnir hratt, og um sólarhring seinna var  komið staðfest tilboð og síðan liðu nokkrir dagar þar til kaupin voru gerð og ákvörðun tekin um að byggja hús á staðnum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og tíminn liðið hratt. Nú þegar 12. Árið er að hefjast er enn verið að bæta aðstöðuna eftir efnum og aðstæðum. Í vetur var hafist handa við að reisa reiðgerði með léttu þaki sem við köllum reiðhof en samskonar reiðgerði er að finna í Almannadal við Geitháls og einnig að Bessatöðum við Hvammstanga. Það hefur aðeins háð aðstöðunni í hesthúsi Kríunnar að hafa ekki inni reiðaðstöðu í svartasta skammdeginu þegar veður geta verið válynd. Þegar skiptast á frosthörkur og hlákukaflar getur hreinlega verið erfitt að hleypa folöldum og ójárnuðum tryppum út í gerði vegan klaka. Þá verður gott að hafa mikið rými til að láta folöld og tryppi hlaupa. Reynsla Jóhanns Magnússonar á Bessastöðum af reiðhofinu til tamningu á ungum tryppum er afar góð. Í hesthúsi Kríunnar er leigðar út stíur til hestamanna eða tamningamanns, allt að 20 stíur og pláss fyrir um 20 folöld.

Gleðilegt nýtt ár og megi 2016 verða ykkur öllum gæfuríkt.

Hörður og María

Til baka